9.7.2008 | 15:45
Motocross hótel á Akureyri - Hótel Keli opnar!!!!
Motokross íbúðagisting opnar á Glerá 2, rétt neðan við aksturssvæði KKA!
Það er komið að því að fyrsta gistiaðstaðan sem höfðar markvisst til mótorhjólamanna hefur verið opnuð. Gistiheimilið á Glerá 2 er staðsett rétt ofan við Akureyri við veginn upp í Hlíðarfjall í miðju draumalandi norðanmanna. Húsið er því í aðeins 150 metra fjarlægð frá aksturssvæði KKA og er hægt að hjóla beint upp á braut frá útidyrunum.
Nú er verið að vinna í motokrossbrautinni á fullu og hún ætti að vera tilbúin á næstu dögum.
Örstutt er niður í miðbæ Akureyrar og enn styttra er í hvers kyns afþreyingu. Aðeins 300 metrar eru í motocross, enduro og reiðhjólabrautir KKA. Frábærar gönguleiðir liggja upp Glerárdalinn, á Hlíðarfjall og Súlur og örstutt leið er á golfvöll Akureyringa. Á veturna er svo hægt að renna sér alveg upp að dyrum frá toppi Hlíðarfjalls sem gerir brekkuna okkar að einni lengstu rennslisbrekku á landinu auk þess krossbrautin verður væntanlega nýtt í snjókrossið þegar snjóalög leyfa.
Húsið er ný standsett og eru öll tæki og aðstaða nýleg og þar eru leigðar út tvær rúmgóðar íbúðir. Á neðri hæðinni er gott pláss fyrir fjóra fullorðna í herbergi og svefnsófa í stofunni. Auðvelt er að bæta við fleiri rúmum ef menn vilja nýta plássið betur. Á efri hæðinni komast auðveldlega fyrir 10 manns í þremur mjög rúmgóðum tveggja manna (eða þriggja með aukarúmi) og tveimur eins manns herbergjum, auk svefnsófa í stofunni.
Við erum í góðu samstarfi við KKA og ef pöntuð er gisting á Glerá getum við boðið upp á dagsmiða í motocrossbrautina á 800 kr. í stað 1.200 kr. Ef margir koma að hjóla þá munar minna. Það eina sem þarf að gera er að láta okkur vita hvað margir ætla að keyra brautina og hvað marga daga og við útvegum ykkur miðana þegar þið komið.
Það eru undirritaður og Guðný kona mín og svo Rúnar og Heiða, stundum kennd við Nikita, sem eigum húsið. Við höfum um árabil stundað ýmiss konar brettasport (snjó, segl, brim, wake...) skíði, fjallahjólreiðar, motocross og hestamennsku svo eitthvað sé upp talið. Við erum búsett fyrir sunnan en okkur finnst gaman að fara norður til Akureyrar bæði að vetri og sumri, vera úti að leika sem mest, skreppa í sund, grilla og hafa gaman af lífinu. Þegar okkur stóð til boða að eignast hús með tveimur góðum íbúðum við rætur Hlíðarfjalls, á næstu lóð við motocross brautina, stóðumst við ekki mátið og keyptum það.
Þar sem við verðum hinsvegar ekki nema nokkrar vikur á ári í húsinu fannst okkur tilvalið að leigja það út til fólks sem langar að skreppa norður og hafa allt til alls á meðan á dvöl þeirra þar stendur. Við bjóðum alla hjólamenn velkomna - svo framarlega sem þeir gangi vel um og skilji við húsið í sama ástandi og þeir koma að því, eða betra!
Enn eru nokkrir dagar lausir fram að verslunarmannahelgi (en V-helgin er því miður farin) og um að gera að festa sér æfingatíma sem fyrst með því að senda póst á keli@intrum.is eða hringja í síma 669 7131.
Kveðja
Hrafnkell formaður VÍK
Athugasemdir
Ég verð að segja að mér finnst þetta alger snilld; frábært framtak og ljóst að þarna á eftir að verða mikið gaman svona öðru hvoru allavega...
Ólafur H. Guðgeirsson, 9.7.2008 kl. 15:49
er húsið bara leigt út til hjólamanna? ég gisti þarna í fyrra um verslunamannahelgina og vaknaði nokkrum sinnum vegna fólks í næsta herbergi sem var að skemmta sér fram eftir... en ég því miður að fara keppa snemma morguns...
reyndar var það nú líka sími hjá mjög svo elskulegri hjóladömu sem svaf í rúminu við hliðina á mér sem endalaust var í því að hringja... hehe
Hekla #336 (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 20:14
Já það er nokkuð ljóst að amk. þær helgar sem keppnir verða fyrir norðan þá mun hjólafólk hafa forgang. Við ætlum að leggja meira upp úr því að fá fólk sem vill vera þarna fyrir útivistina, sumar og vetur, frekar en djammsession í miðbænum. Það er líka viðbúið að það verði stundum betra að láta húsið standa autt heldur en að fá hvern sem er í húsið. Kv. Keli
Hrafnkell Sigtryggsson (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.